Matur og matargerð


Þú ert það sem þú borðar

Hér inn ætla ég að setja hér þær uppskriftir sem ég hef þróað og notast við í dag í matargerð. Bæði er það hentugt fyrir mig að skrifa niður aðgengilegar innihaldslýsingar í því sem ég er að sýsla við, baka og elda, svo ég geti nú gert réttinn aftur alveg eins ef hann skyldi nú slá í gegn hjá fjölskyldunni og einnig er gaman að deila með öðrum því sem ég er að fást við, til gagns og gamans til þeirra sem eru að feta svipaða braut og ég í lífsins ólgusjó.

Undanfarin ár hef ég verið að kynna mér betur og betur glúten- og hveitilaust matarræði og hollari kosti þegar kemur að því sem við innbyrðum. Ein helsta ástæða þess að ég fór af stað í þær pælingar var veikindi mín sem eru meðal annars bólgusjúkdómar.
Það var haustið 2012 sem að ég og eiginmaður minn sátum saman í eldhúsinu og vorum að fá okkur morgunverð. Ég hafði verið mjög slæm þá í nokkurn tíma í skrokknum og voru liðirnir mínir það bólgnir og lúnir af verkjum að ég gat varla haldið á kaffibollanum mínum eða smurt brauðsneiðina mína svo vel væri. Einnig var ég slæm í ökklum og öðrum stórum liðum. Ökklarnir voru verstir á morgnana en liðkuðust til eftir því sem leið á daginn. Á þessum tíma var ég það slæm í ökklunum að ég átti erfitt með að stíga skrefin framúr rúminu á morgnana.
Nístandi sárauki í kroppnum og stirðleiki var það sem að bauð mér góðan dag.

Meðan maðurinn minn smurði fyrir mig ristuðu brauðsneiðina og kom spægipylsuálegginu fyrir á henni, brast litla hjartað í mér og tárin láku niður kinnarnar þarna sem ég sat gegnt honum við eldhúsborðið meðan smurt var ofan í mig 39 ára gamla konuna, eins og ósjálfbjarga barn. Það segir sig sjálft að það er ekki sú staða sem nokkur óskar sér að vera í. Með auma fingurna kreppta um kaffikrúsina leit ég í augu ástarinnar minnar sem sat þarna og horfði til baka með samúðarsvip og smurði ofan í spússu sína.
"Það hlýtur að vera eitthvað sem að við getum gert til að bæta líðan þína," sagði hann, og áður en dagurinn var allur var hann búinn að gúggla fram allskyns upplýsingar varðandi tengingu milli matarræðis, sjúkdóma og krankleika hverskonar. Upp komu margar greinar varðandi ms og mattarræði sem og um aðra bólgusjúkdóma.
Þetta var einstaklega fróðlegt allt samant og mikið af reynslusögum sem við lásum. 
Við ákváðum að byrja að prufa okkur áfram og taka út smátt og smátt það sem að mælst var til að sleppa því að neyta vilji fólk minnka bólgur í líkamanum.
Síðan eru liðin tæp fjögur ár og mikil reynsla komin í bankann.
Þetta hefur verið heilmikill skóli og mætti segja að það hafi tekið mig og okkur hátt í tvö ár að læra á það hvað hægt er að nota og neyta í staðinn fyrir þetta hefðbundna sem við flest ölumst upp við þegar kemur að mat og matargerð eins og hvítt hveiti, sykur og unnar kjöt- og matvörur.
Í dag reyni ég að forðast allt sem inniheldur hveiti, glúten og ger sem og sykur og mikið unnar matvörur. Það kemur alveg fyrir að maður falli samt af baki annað veifið en það er orðið sjaldgæfara eftir því sem tíminn líður og maður upplifir hversu góða líðan maður uppsker ef maður lætur "draslið" í friði.






Engin ummæli:

Skrifa ummæli