þriðjudagur, 29. mars 2016

Smá innlit í páskana mína 2016





Páskar 2016



Á einum af uppáhaldsstöðum okkar hjóna, í ofurlitlu og einskaklega rómantísku bjálkakoti í skógarrjóðri nutum við páskanna þetta árið.
Afslöppunin var alger innan um trjágróðurinn og fuglasönginn og fallega geisla páskasólarinnar 
sem heiðraði okkur með nærveru sinni annað veifið. Gönguferðir með voffana, matargerð, grillstemning á veröndinni, kampavínsskál í heita pottinum í rjóðrinu, kúr í tveggjasæta sófa með ilmandi kaffisopann og súkkulaðimola. Flöktandi kertaljós á borðinu og notalegur ylurinn frá brakandi sprekinu í kamínunni yfir og allt um kring er stemning sem við sækjum í alltaf þegar tækifæri gefst.
Enya fékk að hljóma í eyrum okkar sem endranær meðan við dvöldum í krúttlegu kotinu og friðurinn og kyrrðin flæddi um æðarnar.


Að kúpla sig svona algjörlega frá umheiminum eða svo gott sem í nokkra daga er nauðsynlegt af og til en við mannfólkið viljum því miður alltof oft gleyma okkur í annríkinu og hversdagslegum áhyggjum. Við munum sjálfsagt alltaf finna okkur eitthvað til að hafa áhyggjur af á lífsleiðinni en það er hægt að leggja þær til hliðar um stund og gleyma sjálfum sér aðeins í skjóli frá amstri hversdagsins. Finna sér fallegan stað og njóta þess að vera til og upplifa fegurðina og slökunina sem kyrrðin og náttúran hefur uppá að bjóða. 
Að horfa á sólina setjast eða koma upp er upplifun útaf fyrir sig og ekki skemmir fyrir ef norðurljósin heiðra þig með nærveru sinni líka.

Nokkrar svipmyndir frá Sólbæjardvöl.

Myndirnar eru flestar teknar á símann svo að gæðin eru kannski ekki þau bestu en ég held þær nái alveg að tala sínu máli.































 










Gefðu þér tíma fyrir þig
Kveðja Íris













föstudagur, 18. mars 2016

Rótargrænmetisréttur




RÓTARGRÆNMETISRÉTTUR
OG ÖRBYLGJUBOLLA MEÐ TÚNFISKSALATI


Að hugsa ofurlítið út fyrir kassann þegar kemur að kvöldmatnum.

Það fylgja því ósjálfrátt breytingar á svörunum við spurningunni, "hvað verður í matinn" þegar maður hættir að matbúa það sem maður hefur vanist í gegnum árin og byrjar að spinna upp einhvern rétt úr því hráefni sem fyrirfinnst í ísskápnum hverju sinni og það að tekur tíma að venjast því fyrir alla. Ég veit ekki hversu oft ég hef staðið mig að því að svara dóttur minni þegar hún spyr mig hvað sé í matinn, "ehh, eitthvað, veit ekki hvað ég á að kalla það!" og þá uppsker ég yfirleitt svona upphrópunarmerkis svip frá henni og svo fylgir honum smá "hmmm" og frekar takmörkuð gleði. Allavega ekki svona "jesss" gleði sem að í gegnum tíðina hefur fylgt þegar svarið hefur verið t.d Dominos pizza, eða Kotasælupastarétturinn! ;)

En það vill þó svo vel til að við hér á heimilinu erum öll á sömu bylgjulengd varðandi þá ákvörðun að "fara út með ruslið" þegar kemur að matarræðinu og gera okkar besta í að borða hollan mat og það vill svo skemmtilega til að það sem að ég hef tekið uppá því að matbúa ofan í mannskapinn minn hefur yfirleitt fallið í góðan jarðveg hjá þeim og þótt bæði gott, hollt og fallegt. Dóttir mín sem að er alveg að verða átján ára hefur átt við þurrkvandamál að stríða í húð síðan hún var lítil stelpuskotta og því oft fylgt óþægindi í formi kláða. Hún hefur orðið það slæm blessunin að hún hefur klórað sig til blóðs. Ofnæmispróf leiddu ekkert í ljós en ég fann það út að þegar hún sleppir því að innbyrða vörur sem innihalda glúten, hvítt hveiti og sykur þá verður hún allt önnur í húðinni. Þegar ég kynnti mér verkanir glútens á líkamann þá rakst ég á það meðal annars að það getur valdið ýmsum og slæmum vandamálum í húð og slímhúð svo fátt eitt sé nefnt.
6 Reasons Why Gluten is Bad For Some People

Um daginn kom ég frekar seint heim og gaf mér ekki tíma til að fara að versla inn og ákvað að búa eitthvað til úr því sem að til var í ísskápnum. Ég átti eitthvað af rótargrænmeti og al-falfa spírum, majones, sítrónu, egg og kasjúhnetur. Ég átti líka eitthvað af graslauk, hvítlauk og lauk. Ég átti einnig túnfisk, sinnep frá Sollu og tomato paste og pæklaðar agúrgur svo eitthvað sé nefnt. Ég hófst svo handa við að græja kvöldmat úr herlegheitunum. Úr varð rótargrænmetisréttur með kasjúhnetu og tomatachutney mauki bragðbættu með hvítlauk, sinnepi og ferskum sítrónusafa.
Svo bakaði ég örbylgjubolluna góðu sem ég sá fyrst hjá henni Maríu Kristu og féll alveg fyrir og hef oft notast við síðan í misjöfnum útfærslum. Hún er kjánalega einföld og fljótleg og dásamlega góð.
Þessi rótargrænmetis kvöldverður heppnaðist mjög vel og var í kvöldmatinn aftur næsta dag þar sem að ég hafði soðið svo mikið magn af grænmeti. Þetta var léttur og bragðgóður kvöldverður sem verður klárlega aftur á borðum. Þessi fékk svo nafnið Rótarsalat með túnfiskbrauði svo auðvelt verður að svara spurningunni "hvað er í matinn" næst þegar þessi verður á boðstólum.
Þetta eru svo sannarleg engin geimvísindi en oft er gott fyrir fólk sem er að velta fyrir sér öðrum kostum þegar kemur að matargerð að fá smá svona óhefðbunda kvöldverðarhugmynd af hollum og hreinum kosti þegar það sér ekki skóginn fyrir trjánum. Einnig er svo gott að geta nýtt það sem til er því það er aldrei góður kostur að þurfa að henda mat en því miður gerist það oft að matur dagar uppi í ísskápnum og rennur út á tíma því að hugmyndaflugið vantaði til að nýta hann. 

Hleyptu hugmyndafluginu af stað :)



Sitt lítið af hverju sem til var heima.


Hér er ég búin að svissa einn lauk og 6 stk hvítlauksrif saman á pönnu. Ég notaði bragð og lyktarlausa lífræna kókosolíu til að léttsteikja upp úr og svo saxaði ég graslauk og bætti útá ásamt kasjúhnetum ca lúku og svo matskeið af tomata paste og sinnepinu frá Sollu. Ég bætti svo örlitlu vatni útá og svissaði þetta saman ásamt ögn af salti og safa úr hálfri ferskri sítrónu.
Þessu hrærði ég svo saman við rótargrænmetið þegar það var tilbúið og komið í skál.

Túnsfisksalatið er mjög einfalt, engin geimvísindi þar heldur. Ein dós af túnfisk í vatni, majones dass, hálfur laukur saxaður fínt (ég nota litla matvinnsluvél í það verk) og svo saxaðaur graslaukur og salt eftir smekk. Ég set stundum soðin egg líka, tvö ca, of kannski örlítinn sítrónusafa en gerði það ekki í þetta skiptið.
Fyrir þá sem að finnst gott að fá sér túnfisksalat þá er miklu sniðugra að gera það sjálfur heima og það er líka ódýrara og hollara.



Al-falfa spírur á ég oft í ísskápnum. Þær eru bráðhollar og einnig mjög fallegar þegar þær eru komnar út á matinn. Ég sáldraði þeim yfir rótarsalatið þegar það var komið á diskinn.


Graslaukinn kaupi ég útí búð en langar að koma mér upp aðstöðu í garðinum þar sem ég get ræktað hann sjálf, allavega yfir sumartímann.


 Svona lítur örbylgjubrauðbollan út eftir að búið er að skera hana til helminga. Dúnmjúk, flöffí og bragðgóð og ekki má gleyma algerlega glúten, sykur- og hveitilaus.
Uppskrift frá Maríu Kristu af örbylgjubollunni.


Hér er grænmetið sem ég átti til í ísskápnum og notaði í rótarsalatið mitt. Ég átti einnig sellerý sem og nota yfirleitt alltaf með þegar ég "djúsa" sítrónu- og engifer drykkinn minn. Sellerý finnst mér líka sérlega gott með sem krydd, það er beiskt segja sumir eða braðgafgerandi en þegar það er eldað þá breytist bragðið og gefur góðan keim. Einngi finnst mér það ljúfmeti þegar það er ofnbakað í potti með lambasteikinni.


Sitt lítið af hverju sem ég notaðist við.


Hér er rótargrænmetið komið niðurskorið í pottinn ásamt selleríinu.
Ég sauð það í hátt í klukkutíma í vatni. Þarna eru gulrætur og rófa. Sellerí, hnúðkál og kínversk hreðka. Hreðkan er af radísuætt. Hún lyktar svipað og radísa en er bragðminni. Þegar hún er soðin þá dofnar radísulyktin og verður frekar mild á bragðið.
Kínverska hreðkan er sannkallað undurefni sé hennar neytt. Hún er sögð draga úr innvortis hita og koma reglu á hringrás blóðs og orku. Hún er einnig sögð styrkja lifur og hjálpa til við meltingu. Hún vinnur á móti eiturefnum í líkamanum, græðir þrota og er slímlosandi og hóstastillandi samkvæmt upptalningu er viðkemur Kínverskum lækningum og lækninga jurtum.


Svona lítur kínversk hreðka/radísa út.



Svo nú er ekkert eftir annað fyrir þig en að fara að prufa þig áfram með það sem er til heima 
og koma fjölskyldunni á óvart með hollum og góðum málsverði.
Já eða versla þér í þetta ljúffenga salat og dunda þér við kertaljós
og kósý tónlist við að matbúa það.

Njóttu vel.







miðvikudagur, 16. mars 2016

Hvað er Paleo?


HVAÐ ER PALEO

Þegar við hjónin fórum af stað í það að kynna okkur hvaða matvæli innihéldu ekki glúten og viðbættan sykur ásamt fleiru þá duttum við niður á nokkuð sem kallað er Paleo matarræði eða matarræði hellisbúans. Okkur fannst það heilla fyrir margra hluta sakir og vera hentug lausn þegar kemur að allsherjar lífstílsbreytingu er varðar matarræði. Paleo snýr að því að borða hreinar og óunnar matvörur, lífrænt ræktað er alltaf betri kostur en hitt þar sem gætt er að því að rétt næringarefni séu til staðar í jarðveginum sem ræktað er upp úr og skorðdýraeitri er ekki úðað yfir matvælin. Ekki er heldur verið að notast við erfðabreytt fræ í lífrænni ræktun. Þess vegna eru lífrænir ávextir og grænmeti minni að stærð en það sem hefur verið erfðabreytt með þeim tilgangi að það vaxi bæði hraðar og verði stærra. Í lífrænt ræktuðu hráefni eru öll þau næringarefni sem afurðin á að innihalda frá náttúrunnar hendi til staðar svo þú ert alltaf að fá meira fyrir peninginn með því að velja og versla inn lífrænar afurðir. Það segir sig sjálft.

Við héldum áfram að kynna okkur þetta og þróa okkar breytingar í matarræði út frá Paleo matarræðinu. Þeir sem að fara algjörlega eftir því sem að Dr. Loren Cordain, einn af hugmyndasmiðunum að baki Paleo matarræðisins ráðleggur fólki að gera, eru að sama skapi ekki að neita neinna mjólkurafurða. Við ákváðum þó að halda inni feitum ostum, rjóma, hreinni jógúrt og 36% sýrðum rjóma þar sem að við vorum ekki í leit að skammtímakúr heldur framtíðar lífstílsbreytingu varðandi matarræði sem hentaði okkur. Við takmörkum þó þessar mjólkurafurðir og notumst meira við þær svona spari.
Samkvæmt sanntrúuðum Paleo ætum þá ættir þú að alfarið að forðast allar kornvörur, unnar matvörur, sykraðar vörur, kartöflur og baunir. Einnig ættir þú að forðast kjötvörur sem eru ræktaðar á öðru en grasi og lyngi sem og allar mjólkurafurðir. Reykt og saltað kjöt og fiskur er einnig á bannlista.

Við leyfum okkur þó reyktan silung og reyktan- og grafin lax til hátíðarbrigða og stöku sinnum bacon en pössum að velja bacon sem ekki hefur verið bætt sykri í og öðrum óþarfa innihaldsefnum í. Einnig borðum við sætar kartöflur og einstaka sinnur baunir.

En jæja, þegar ég svo var búin að fara í gegnum þessa flóru alla varðandi hvað má og má ekki neyta til að fyrirbyggja bólgumyndun í líkamanum þá leit ég upp frá lesningunni og sagði, "já sæll, maður má barasta ekki borða neitt!" Meðan svarið í raun var, "Þú mátt borða allt sem gerir þér og líkama þínum gott, og þar er af nógu að taka."

Svo hófst ferðalagið að finna út hvar ég fengi holla staðgengla í stað þeirra sem ég hafði neytt fram til þessa og það tók mig alveg tvö ár að læra inná breyttar venjur í mat og matarinnkaupum en það tók hinsvegar ekki nema tvær vikur að finna fyrir miklum mun í líkamanum og líðaninni almennt eftir að ég "fór út með ruslið" og inn með holla og hreina matvöru.

Við hjónin skilgreinum okkur því ekki sem Paleo týpurnar en Paleo er vissulega grunnurinn í okkar ferðalagi í átt til bættrar heilsu og betra lífs.




Mynd fengin að láni frá,







þriðjudagur, 15. mars 2016

Grillbrauð



GRILLBRAUÐ






Þetta brauð hefur verið að þróast hjá mér fram og til baka eftir að ég kynnti mér bakstur úr kókoshveiti og möndlumjöli. Þetta brauð er einfalt og hollt og yfirleitt á ég alltaf eitthvað í skápunum til að búa það til. Ég hef gert af því ýmsar útgáfur og prufað mig áfram með mismunandi fræ og krydd og önnur innihaldsefni. Þetta brauð hefur slegið í gegn á mínu heimili í öllum útfærslum enda bæði einfalt, fljótlegt og gott og flestir geta hrært í það með lítilli fyrirhöfn. Mér finnst mjög gott að setja rifinn ost í deigið og þá nota ég sem feitasta osta eða ekki undir 26%
Einnig er mjög gott að setja rjóma, sýrðan rjóma, majones eða rjómaost út í deigið, eða dass af öllu upptöldu ef stemningin er þannig. Ef þú vilt minni fitu þá geturðu skipt rjómanum út fyrir vatn en varastu að setja of mikið af því í einu, bara smátt og smátt svo deigið verði ekki of þunnt. Endilega prufaðu þig svo áfram með kryddum. Hvítlaukur er t.d frábær líka í þetta brauð.
Það eru engin hlutföll alveg heilög þegar kemur að þessum brauðbakstri og ég dassa bara út í skálina því sem ég á til þegar ég baka það, uppskriftin hér á eftir er svona til að gefa ykkur ca hlutfalls tilfinninguna en svo er um að gera að prufa sig áfram með allskyns tilfæringum og því sem að ykkur dettur í hug með innihaldsefnin nema kannski kókoshveitið, deigið verður of þurrt ef of mikið af því er notað.
Uppskrift.

3 - 4 stk egg (fer eftir stærð) og að sjálfsögðu notum við egg frá hamingjusömum hænum :)
3 msk kókoshveiti
2 msk chiafræ
2 msk sólblómafræ
1 msk hörfræ
1 msk graskersfræ
2 msk rjómaostur
2 msk majones
lúka af rifnum osti (ca 3 kúfaðar msk)
2msk olivuolía (einnig hægt að nota hreint smjör)
Smá vatn eða rjómi (eða bæði) til að bleyta uppi og þynna deigið.
1 tsk salt

Hrærið allt saman í skál með sleif og svo písk. Bætið vatni og rjóma útí deigið eftir þörfum. Hellið deiginu útá grillið en munið að setja smörpappír í það fyrst sem bæði mun hylja deigið undir og ofan á. Fletjið deigið út yfir grillflötin með skeið eða sleikju. Lokið grillinu og bakið þar til deigið er orðið svotil þurrt og þétt og laust frá sjörpappírnum. Baksturinn tekur 10 til 15 mínútur en sjálfsagt misjafnt eftir grillum og hvort hægt sé að hitastilla þau sérstaklega. Þið þreifið ykkur áfram, þannig verða meistaraverkin til ;)

Þegar brauðið er klárt set ég það á bretti eða bakka og sker það í 6 til 8 átta sneiðar. Stundum grilla ég það svo aftur í samlokum með osti og pestó á milli eða bara smyr hverja sneið fyrir sig með því áleggi sem heillar hverju sinni.

Kókoshveiti, graskersfræ, chiafræ,
sólblómafræ og hörfræ.

Rjómaostur, ostsneiðar sem ég reif útí, egg,
majones og salt.

Hér er allt komið í skálina ásamt rjómaosti, 
rifnum ostsneiðum og majónesi.

Deigið tilbúið.

Gamla góða grillið mitt stendur fyrir sínu.

Svona lítur þetta út inni í smjörpappírnum.

Hér er brauðið orðið klárt.

Komið á bakka og lofar góðu.

Að þessu sinni gerði ég fjórar samlokur
úr brauðinu. Ég smurði þær svo með smjöri
og avacado mauki og setti ost á milli. Svo skellti
ég þeim aðeins aftur í grillið (í smjörpappírnum) og setti
svo restina af álegginu á milli eftir að samlokurnar
komu úr grillinu.


Njóttu vel og verði þér að góðu.









föstudagur, 11. mars 2016

Íris bloggar..


Velkomin á bloggið mitt.


Ég heiti Íris Björk Hlöðversdóttir.
Eiginkona, móðir,stjúpmóðir.
Mottó
"Að njóta lífsins og alls þess fallega og góða sem það hefur uppá að bjóða.
Að horfa alltaf í átt til sólar, þannig falla skuggarnir sjálfkrafa að baki."

Það hefur verið að velkjast um í mér í nokkur ár hvort ég ætti að starta opnu lífstíls bloggi, ekki síst sökum áskorana frá vinum, fjölskyldu og velunnurum. Ég hef melt þessa pælingu vel og lengi og nú ákveðið að láta af því verða. V
onandi er ég að stíga rétt skref með því og óskandi að þetta muni verða skemmtilegt verkefni og vettvangur gjöfulla samskipta, bæði mér og þér lesandi góður til ánægju, fræðslu og yndisauka. 


Öll erum við að fást við allskyns verkefni í lífum okkar og eru þau jafn misjöfn og þau eru mörg. Mér hefur verið mjög hugleikið eftir að hafa fengið þær "gjafir" í lífinu að lenda í slysi sem hafði slæmar afleiðingar á stoðkerfi mitt og að auki að greinast með gigtarsjúkdóma og svo miðtaugakerfissjúkdóminn MS árið 2008, svo fátt eitt sé nefnt, að gera mitt besta í stöðunni hverju sinni. Að halda í jákvæðnina og bjartsýnina getur "flutt fjöll" segi ég, og einnig er svo margt sem við getum gert til að stuðla að betri og bættri líðan okkar með því að vanda hvað við borðum og hvernig við förum með okkur.

"Það þýðir ekkert að setja bensín á dísel vél og kvarta svo yfir því að hún 
virki ekki sem skyldi"

Svo að, velkomin á bloggið mitt og endilega þið sem kíkið við skiljið eftir ykkur "fótspor" á síðunni í formi umsagnar um hvað ykkur finnst um þetta uppátæki mitt. 

Svo væri gaman að fá umsagnir undir póstana mína þegar þeir byrja að fæðast.



Með kærri kveðju,

Íris Björk