þriðjudagur, 29. mars 2016

Smá innlit í páskana mína 2016





Páskar 2016



Á einum af uppáhaldsstöðum okkar hjóna, í ofurlitlu og einskaklega rómantísku bjálkakoti í skógarrjóðri nutum við páskanna þetta árið.
Afslöppunin var alger innan um trjágróðurinn og fuglasönginn og fallega geisla páskasólarinnar 
sem heiðraði okkur með nærveru sinni annað veifið. Gönguferðir með voffana, matargerð, grillstemning á veröndinni, kampavínsskál í heita pottinum í rjóðrinu, kúr í tveggjasæta sófa með ilmandi kaffisopann og súkkulaðimola. Flöktandi kertaljós á borðinu og notalegur ylurinn frá brakandi sprekinu í kamínunni yfir og allt um kring er stemning sem við sækjum í alltaf þegar tækifæri gefst.
Enya fékk að hljóma í eyrum okkar sem endranær meðan við dvöldum í krúttlegu kotinu og friðurinn og kyrrðin flæddi um æðarnar.


Að kúpla sig svona algjörlega frá umheiminum eða svo gott sem í nokkra daga er nauðsynlegt af og til en við mannfólkið viljum því miður alltof oft gleyma okkur í annríkinu og hversdagslegum áhyggjum. Við munum sjálfsagt alltaf finna okkur eitthvað til að hafa áhyggjur af á lífsleiðinni en það er hægt að leggja þær til hliðar um stund og gleyma sjálfum sér aðeins í skjóli frá amstri hversdagsins. Finna sér fallegan stað og njóta þess að vera til og upplifa fegurðina og slökunina sem kyrrðin og náttúran hefur uppá að bjóða. 
Að horfa á sólina setjast eða koma upp er upplifun útaf fyrir sig og ekki skemmir fyrir ef norðurljósin heiðra þig með nærveru sinni líka.

Nokkrar svipmyndir frá Sólbæjardvöl.

Myndirnar eru flestar teknar á símann svo að gæðin eru kannski ekki þau bestu en ég held þær nái alveg að tala sínu máli.































 










Gefðu þér tíma fyrir þig
Kveðja Íris













Engin ummæli:

Skrifa ummæli