föstudagur, 18. mars 2016

Rótargrænmetisréttur




RÓTARGRÆNMETISRÉTTUR
OG ÖRBYLGJUBOLLA MEÐ TÚNFISKSALATI


Að hugsa ofurlítið út fyrir kassann þegar kemur að kvöldmatnum.

Það fylgja því ósjálfrátt breytingar á svörunum við spurningunni, "hvað verður í matinn" þegar maður hættir að matbúa það sem maður hefur vanist í gegnum árin og byrjar að spinna upp einhvern rétt úr því hráefni sem fyrirfinnst í ísskápnum hverju sinni og það að tekur tíma að venjast því fyrir alla. Ég veit ekki hversu oft ég hef staðið mig að því að svara dóttur minni þegar hún spyr mig hvað sé í matinn, "ehh, eitthvað, veit ekki hvað ég á að kalla það!" og þá uppsker ég yfirleitt svona upphrópunarmerkis svip frá henni og svo fylgir honum smá "hmmm" og frekar takmörkuð gleði. Allavega ekki svona "jesss" gleði sem að í gegnum tíðina hefur fylgt þegar svarið hefur verið t.d Dominos pizza, eða Kotasælupastarétturinn! ;)

En það vill þó svo vel til að við hér á heimilinu erum öll á sömu bylgjulengd varðandi þá ákvörðun að "fara út með ruslið" þegar kemur að matarræðinu og gera okkar besta í að borða hollan mat og það vill svo skemmtilega til að það sem að ég hef tekið uppá því að matbúa ofan í mannskapinn minn hefur yfirleitt fallið í góðan jarðveg hjá þeim og þótt bæði gott, hollt og fallegt. Dóttir mín sem að er alveg að verða átján ára hefur átt við þurrkvandamál að stríða í húð síðan hún var lítil stelpuskotta og því oft fylgt óþægindi í formi kláða. Hún hefur orðið það slæm blessunin að hún hefur klórað sig til blóðs. Ofnæmispróf leiddu ekkert í ljós en ég fann það út að þegar hún sleppir því að innbyrða vörur sem innihalda glúten, hvítt hveiti og sykur þá verður hún allt önnur í húðinni. Þegar ég kynnti mér verkanir glútens á líkamann þá rakst ég á það meðal annars að það getur valdið ýmsum og slæmum vandamálum í húð og slímhúð svo fátt eitt sé nefnt.
6 Reasons Why Gluten is Bad For Some People

Um daginn kom ég frekar seint heim og gaf mér ekki tíma til að fara að versla inn og ákvað að búa eitthvað til úr því sem að til var í ísskápnum. Ég átti eitthvað af rótargrænmeti og al-falfa spírum, majones, sítrónu, egg og kasjúhnetur. Ég átti líka eitthvað af graslauk, hvítlauk og lauk. Ég átti einnig túnfisk, sinnep frá Sollu og tomato paste og pæklaðar agúrgur svo eitthvað sé nefnt. Ég hófst svo handa við að græja kvöldmat úr herlegheitunum. Úr varð rótargrænmetisréttur með kasjúhnetu og tomatachutney mauki bragðbættu með hvítlauk, sinnepi og ferskum sítrónusafa.
Svo bakaði ég örbylgjubolluna góðu sem ég sá fyrst hjá henni Maríu Kristu og féll alveg fyrir og hef oft notast við síðan í misjöfnum útfærslum. Hún er kjánalega einföld og fljótleg og dásamlega góð.
Þessi rótargrænmetis kvöldverður heppnaðist mjög vel og var í kvöldmatinn aftur næsta dag þar sem að ég hafði soðið svo mikið magn af grænmeti. Þetta var léttur og bragðgóður kvöldverður sem verður klárlega aftur á borðum. Þessi fékk svo nafnið Rótarsalat með túnfiskbrauði svo auðvelt verður að svara spurningunni "hvað er í matinn" næst þegar þessi verður á boðstólum.
Þetta eru svo sannarleg engin geimvísindi en oft er gott fyrir fólk sem er að velta fyrir sér öðrum kostum þegar kemur að matargerð að fá smá svona óhefðbunda kvöldverðarhugmynd af hollum og hreinum kosti þegar það sér ekki skóginn fyrir trjánum. Einnig er svo gott að geta nýtt það sem til er því það er aldrei góður kostur að þurfa að henda mat en því miður gerist það oft að matur dagar uppi í ísskápnum og rennur út á tíma því að hugmyndaflugið vantaði til að nýta hann. 

Hleyptu hugmyndafluginu af stað :)



Sitt lítið af hverju sem til var heima.


Hér er ég búin að svissa einn lauk og 6 stk hvítlauksrif saman á pönnu. Ég notaði bragð og lyktarlausa lífræna kókosolíu til að léttsteikja upp úr og svo saxaði ég graslauk og bætti útá ásamt kasjúhnetum ca lúku og svo matskeið af tomata paste og sinnepinu frá Sollu. Ég bætti svo örlitlu vatni útá og svissaði þetta saman ásamt ögn af salti og safa úr hálfri ferskri sítrónu.
Þessu hrærði ég svo saman við rótargrænmetið þegar það var tilbúið og komið í skál.

Túnsfisksalatið er mjög einfalt, engin geimvísindi þar heldur. Ein dós af túnfisk í vatni, majones dass, hálfur laukur saxaður fínt (ég nota litla matvinnsluvél í það verk) og svo saxaðaur graslaukur og salt eftir smekk. Ég set stundum soðin egg líka, tvö ca, of kannski örlítinn sítrónusafa en gerði það ekki í þetta skiptið.
Fyrir þá sem að finnst gott að fá sér túnfisksalat þá er miklu sniðugra að gera það sjálfur heima og það er líka ódýrara og hollara.



Al-falfa spírur á ég oft í ísskápnum. Þær eru bráðhollar og einnig mjög fallegar þegar þær eru komnar út á matinn. Ég sáldraði þeim yfir rótarsalatið þegar það var komið á diskinn.


Graslaukinn kaupi ég útí búð en langar að koma mér upp aðstöðu í garðinum þar sem ég get ræktað hann sjálf, allavega yfir sumartímann.


 Svona lítur örbylgjubrauðbollan út eftir að búið er að skera hana til helminga. Dúnmjúk, flöffí og bragðgóð og ekki má gleyma algerlega glúten, sykur- og hveitilaus.
Uppskrift frá Maríu Kristu af örbylgjubollunni.


Hér er grænmetið sem ég átti til í ísskápnum og notaði í rótarsalatið mitt. Ég átti einnig sellerý sem og nota yfirleitt alltaf með þegar ég "djúsa" sítrónu- og engifer drykkinn minn. Sellerý finnst mér líka sérlega gott með sem krydd, það er beiskt segja sumir eða braðgafgerandi en þegar það er eldað þá breytist bragðið og gefur góðan keim. Einngi finnst mér það ljúfmeti þegar það er ofnbakað í potti með lambasteikinni.


Sitt lítið af hverju sem ég notaðist við.


Hér er rótargrænmetið komið niðurskorið í pottinn ásamt selleríinu.
Ég sauð það í hátt í klukkutíma í vatni. Þarna eru gulrætur og rófa. Sellerí, hnúðkál og kínversk hreðka. Hreðkan er af radísuætt. Hún lyktar svipað og radísa en er bragðminni. Þegar hún er soðin þá dofnar radísulyktin og verður frekar mild á bragðið.
Kínverska hreðkan er sannkallað undurefni sé hennar neytt. Hún er sögð draga úr innvortis hita og koma reglu á hringrás blóðs og orku. Hún er einnig sögð styrkja lifur og hjálpa til við meltingu. Hún vinnur á móti eiturefnum í líkamanum, græðir þrota og er slímlosandi og hóstastillandi samkvæmt upptalningu er viðkemur Kínverskum lækningum og lækninga jurtum.


Svona lítur kínversk hreðka/radísa út.



Svo nú er ekkert eftir annað fyrir þig en að fara að prufa þig áfram með það sem er til heima 
og koma fjölskyldunni á óvart með hollum og góðum málsverði.
Já eða versla þér í þetta ljúffenga salat og dunda þér við kertaljós
og kósý tónlist við að matbúa það.

Njóttu vel.







Engin ummæli:

Skrifa ummæli