miðvikudagur, 16. mars 2016

Hvað er Paleo?


HVAÐ ER PALEO

Þegar við hjónin fórum af stað í það að kynna okkur hvaða matvæli innihéldu ekki glúten og viðbættan sykur ásamt fleiru þá duttum við niður á nokkuð sem kallað er Paleo matarræði eða matarræði hellisbúans. Okkur fannst það heilla fyrir margra hluta sakir og vera hentug lausn þegar kemur að allsherjar lífstílsbreytingu er varðar matarræði. Paleo snýr að því að borða hreinar og óunnar matvörur, lífrænt ræktað er alltaf betri kostur en hitt þar sem gætt er að því að rétt næringarefni séu til staðar í jarðveginum sem ræktað er upp úr og skorðdýraeitri er ekki úðað yfir matvælin. Ekki er heldur verið að notast við erfðabreytt fræ í lífrænni ræktun. Þess vegna eru lífrænir ávextir og grænmeti minni að stærð en það sem hefur verið erfðabreytt með þeim tilgangi að það vaxi bæði hraðar og verði stærra. Í lífrænt ræktuðu hráefni eru öll þau næringarefni sem afurðin á að innihalda frá náttúrunnar hendi til staðar svo þú ert alltaf að fá meira fyrir peninginn með því að velja og versla inn lífrænar afurðir. Það segir sig sjálft.

Við héldum áfram að kynna okkur þetta og þróa okkar breytingar í matarræði út frá Paleo matarræðinu. Þeir sem að fara algjörlega eftir því sem að Dr. Loren Cordain, einn af hugmyndasmiðunum að baki Paleo matarræðisins ráðleggur fólki að gera, eru að sama skapi ekki að neita neinna mjólkurafurða. Við ákváðum þó að halda inni feitum ostum, rjóma, hreinni jógúrt og 36% sýrðum rjóma þar sem að við vorum ekki í leit að skammtímakúr heldur framtíðar lífstílsbreytingu varðandi matarræði sem hentaði okkur. Við takmörkum þó þessar mjólkurafurðir og notumst meira við þær svona spari.
Samkvæmt sanntrúuðum Paleo ætum þá ættir þú að alfarið að forðast allar kornvörur, unnar matvörur, sykraðar vörur, kartöflur og baunir. Einnig ættir þú að forðast kjötvörur sem eru ræktaðar á öðru en grasi og lyngi sem og allar mjólkurafurðir. Reykt og saltað kjöt og fiskur er einnig á bannlista.

Við leyfum okkur þó reyktan silung og reyktan- og grafin lax til hátíðarbrigða og stöku sinnum bacon en pössum að velja bacon sem ekki hefur verið bætt sykri í og öðrum óþarfa innihaldsefnum í. Einnig borðum við sætar kartöflur og einstaka sinnur baunir.

En jæja, þegar ég svo var búin að fara í gegnum þessa flóru alla varðandi hvað má og má ekki neyta til að fyrirbyggja bólgumyndun í líkamanum þá leit ég upp frá lesningunni og sagði, "já sæll, maður má barasta ekki borða neitt!" Meðan svarið í raun var, "Þú mátt borða allt sem gerir þér og líkama þínum gott, og þar er af nógu að taka."

Svo hófst ferðalagið að finna út hvar ég fengi holla staðgengla í stað þeirra sem ég hafði neytt fram til þessa og það tók mig alveg tvö ár að læra inná breyttar venjur í mat og matarinnkaupum en það tók hinsvegar ekki nema tvær vikur að finna fyrir miklum mun í líkamanum og líðaninni almennt eftir að ég "fór út með ruslið" og inn með holla og hreina matvöru.

Við hjónin skilgreinum okkur því ekki sem Paleo týpurnar en Paleo er vissulega grunnurinn í okkar ferðalagi í átt til bættrar heilsu og betra lífs.




Mynd fengin að láni frá,







Engin ummæli:

Skrifa ummæli