þriðjudagur, 15. mars 2016

Grillbrauð



GRILLBRAUÐ






Þetta brauð hefur verið að þróast hjá mér fram og til baka eftir að ég kynnti mér bakstur úr kókoshveiti og möndlumjöli. Þetta brauð er einfalt og hollt og yfirleitt á ég alltaf eitthvað í skápunum til að búa það til. Ég hef gert af því ýmsar útgáfur og prufað mig áfram með mismunandi fræ og krydd og önnur innihaldsefni. Þetta brauð hefur slegið í gegn á mínu heimili í öllum útfærslum enda bæði einfalt, fljótlegt og gott og flestir geta hrært í það með lítilli fyrirhöfn. Mér finnst mjög gott að setja rifinn ost í deigið og þá nota ég sem feitasta osta eða ekki undir 26%
Einnig er mjög gott að setja rjóma, sýrðan rjóma, majones eða rjómaost út í deigið, eða dass af öllu upptöldu ef stemningin er þannig. Ef þú vilt minni fitu þá geturðu skipt rjómanum út fyrir vatn en varastu að setja of mikið af því í einu, bara smátt og smátt svo deigið verði ekki of þunnt. Endilega prufaðu þig svo áfram með kryddum. Hvítlaukur er t.d frábær líka í þetta brauð.
Það eru engin hlutföll alveg heilög þegar kemur að þessum brauðbakstri og ég dassa bara út í skálina því sem ég á til þegar ég baka það, uppskriftin hér á eftir er svona til að gefa ykkur ca hlutfalls tilfinninguna en svo er um að gera að prufa sig áfram með allskyns tilfæringum og því sem að ykkur dettur í hug með innihaldsefnin nema kannski kókoshveitið, deigið verður of þurrt ef of mikið af því er notað.
Uppskrift.

3 - 4 stk egg (fer eftir stærð) og að sjálfsögðu notum við egg frá hamingjusömum hænum :)
3 msk kókoshveiti
2 msk chiafræ
2 msk sólblómafræ
1 msk hörfræ
1 msk graskersfræ
2 msk rjómaostur
2 msk majones
lúka af rifnum osti (ca 3 kúfaðar msk)
2msk olivuolía (einnig hægt að nota hreint smjör)
Smá vatn eða rjómi (eða bæði) til að bleyta uppi og þynna deigið.
1 tsk salt

Hrærið allt saman í skál með sleif og svo písk. Bætið vatni og rjóma útí deigið eftir þörfum. Hellið deiginu útá grillið en munið að setja smörpappír í það fyrst sem bæði mun hylja deigið undir og ofan á. Fletjið deigið út yfir grillflötin með skeið eða sleikju. Lokið grillinu og bakið þar til deigið er orðið svotil þurrt og þétt og laust frá sjörpappírnum. Baksturinn tekur 10 til 15 mínútur en sjálfsagt misjafnt eftir grillum og hvort hægt sé að hitastilla þau sérstaklega. Þið þreifið ykkur áfram, þannig verða meistaraverkin til ;)

Þegar brauðið er klárt set ég það á bretti eða bakka og sker það í 6 til 8 átta sneiðar. Stundum grilla ég það svo aftur í samlokum með osti og pestó á milli eða bara smyr hverja sneið fyrir sig með því áleggi sem heillar hverju sinni.

Kókoshveiti, graskersfræ, chiafræ,
sólblómafræ og hörfræ.

Rjómaostur, ostsneiðar sem ég reif útí, egg,
majones og salt.

Hér er allt komið í skálina ásamt rjómaosti, 
rifnum ostsneiðum og majónesi.

Deigið tilbúið.

Gamla góða grillið mitt stendur fyrir sínu.

Svona lítur þetta út inni í smjörpappírnum.

Hér er brauðið orðið klárt.

Komið á bakka og lofar góðu.

Að þessu sinni gerði ég fjórar samlokur
úr brauðinu. Ég smurði þær svo með smjöri
og avacado mauki og setti ost á milli. Svo skellti
ég þeim aðeins aftur í grillið (í smjörpappírnum) og setti
svo restina af álegginu á milli eftir að samlokurnar
komu úr grillinu.


Njóttu vel og verði þér að góðu.









Engin ummæli:

Skrifa ummæli